Reglugerð um Landsmennt

Landsmennt – fræðslusjóður Samtaka atvinnulífsins og aðildararfélaga Starfsgreinasambands Íslands á landsbyggðinni.

Reglugerð

1. gr.
Sjóðurinn heitir Landsmennt, fræðslusjóður og er með heimili og varnarþing í Reykjavík. Sjóðurinn byggir á grundvelli kjarasamnings Samtaka atvinnulífsins við Verkamannasamband Íslands og Landssamband iðnverkafólks frá 13. apríl árið 2000. Sjóðurinn starfar nú samkvæmt kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands á landsbyggðinni frá 7. mars 2004 og síðari kjarasamningum aðila. Landsmennt fræðslusjóður starfar með því skipulagi og markmiði sem segir í þessari reglugerð og nánari reglum sem stjórn sjóðsins setur.  

2.gr.
Markmið sjóðsins er annars vegar að auka möguleika fyrirtækja á að þróa starfssvið/starfsemi sína og bæta þannig samkeppnishæfni og hins vegar að efla starfsmenntun almennra starfsmanna þeirra með það fyrir augum að þeir verði færari til að takast á við sífellt fjölbreyttari verkefni. Til þess að ná nefndum markmiðum verður m.a. leitað samstarfs við aðra fræðslusjóði, fræðslustofnanir, stéttarfélög, fyrirtæki og opinbera aðila.

3. gr.
Meginhlutverk Landsmenntar fræðslusjóðs er að sinna stuðningsverkefnum og þróunar- og hvatningaraðgerðum í starfsmenntun fyrir almenna starfsmenn. Sjóðurinn: Veitir einstaklingum og fyrirtækjum styrki vegna starfsmenntunar samkvæmt nánari reglum stjórnar. Styður við skipulag og stefnumótun fræðslu í fyrirtækjum Styrkja nýjungar í námsefnisgerð og endurskoðun námsefnis. Landsmennt sinnir hlutverki sínu ennfremur með eftirfarandi hætti: Veitir styrki til þeirra verkefna sem aðilar semja sérstaklega um í kjarasamningi. Hefur frumkvæði að þróunarverkefnum í starfsmenntun. Leggur áherslu á kynningar- og hvatningarstarf er tengist starfsmenntun. Jafnframt setur stjórn sér nánari vinnureglur um úthlutun. Stéttarfélög sjá um úthlutun einstaklingsstyrkja í umboði Landsmenntar.  

4.gr.
Stjórn Landsmenntar skal skipuð sex mönnum og fjórum til vara. Þrír skulu skipaðir af Samtökum atvinnulífsins og þrír frá hlutaðeigandi stéttarfélögum. Stjórn kýs sér formann og varaformann til tveggja ára í senn. Samtök atvinnulífsins skipa tvo varamenn og hlutaðeigandi stéttarfélög tvo. Stjórnin skal halda gerðabók og rita í hana allar samþykktir sínar. Til þess að samþykkt sé lögmæt, þarf meirihluti stjórnarmanna að vera henni fylgjandi.

5.gr.
Tekjur í sjóð Landsmenntar eru: Samningsbundin gjöld atvinnurekenda (starfsmenntaiðgjald) eins og semst um á hverjum tíma. Við undirritun þessarar reglugerðar er starfsmenntaiðjgald 0,30% af heildarlaunum félagsmanna aðildarfélaga sjóðsins. Styrkir úr öðrum sjóðum (erlendum jafnt sem innlendum) til verkefna sem samrýmast markmiðum sjóðsins Vaxtatekjur. Aðrar tekjur. Tekjum úr sjóði Landsmenntar skal einungis varið í samræmi við markmið hans sbr. 2. gr. Stjórn ákveður við hverja er samið um innheimtu starfsmenntaiðgjalds og skulu samningar bornir undir stjórn. Innheimtusamningur skal kveða á um bein skil til sjóðsins. Við undirritun þessarar reglugerðar er unnið eftir innheimtusamningum við þau aðildarfélög SGS sem aðild eiga að sjóðnum.

6.gr.
Reikningssár verkefnisins er almanaksárið. Reikningar skulu liggja fyrir í síðasta lagi í apríl ár hvert og skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðendum sem aðilar koma sér saman um. Sjóðurinn verður ávaxtaður á þann hátt sem stjórn telur hagkvæmast á hverjum tíma. Framkvæmdatjóra sjóðsins er heimilt, í samráði við stjórn, að semja við aðra aðila um færslu bókhalds.

7.gr.
Stjórn stýrir starfi sjóðsins í samræmi við 3. gr. þessarar reglugerðar. Stjórn ræður framkvæmdastjóra sjóðsins sem stýrir skrifstofu sjóðsins og starfsmannahaldi. Skrifstofa sjóðsins annast umsýslu og reikningshald sjóðsins, framfylgir samningum vegna innheimtu tekna og innir af hendi greiðslur úr honum, allt eftir tilvísun stjórnar. Stjórnin skilar ársreikningum og skýrslu um störf sín til eigenda.  

8.gr.
Um önnur ónefnd atriði vísast til kjarasamnings SA og ofangreindra stéttarfélaga sem í gildi eru á hverjum tíma. Breytingar á þessari reglugerð skulu hljóta samhljóða samþykki stjórnar sjóðsins. Samþykkt og undirritað af fulltrúum frá Samtökum atvinnulífsins og aðildarfélögum Starfsgreinasambands Íslands á landsbyggðinni í stjórn Landsmenntar. Reykjavík,  23. september 2015