Sjómennt

Sjómennt – starfsmenntun sjómanna

Reglugerð

1. gr.
Starfsemin heitir Sjómennt – starfsmenntun sjómanna, og er með því skipulagi og markmiði sem segir í reglugerð þessari. Starfssemin er kölluð Sjómennt og er með heimili og varnarþing í Reykjavík. Sjómennt starfar samkvæmt samkomulagi Samtaka atvinnulífsins (SA) og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) við Sjómannasamband Íslands (SSÍ) frá 31. maí 2002.

2.gr.
Meginhlutverk Sjómenntar er að sinna stuðningsverkefnum og þróunar- og hvatningaraðgerðum í starfsmenntun fyrir sjómenn.

Sjómennt skal vinna að eftirfarandi:

  • Veita einstaklingum og fyrirtækjum styrki vegna starfsmenntunar samkvæmt nánari reglum stjórnar.
  • Kanna þörf útgerða fyrir starfsmenntun sjómanna.
  • Leita eftir viðræðum við stjórnvöld um fyrirkomulag fullorðinsfræðslu.
  • Styrkja nýjungar í námsefnisgerð og endurskoðun námsefnis.
  • Styrkja rekstur námskeiða.
  • Hafa frumkvæði að þróunarverkefnum í starfsmenntun.
  • Leggja áherslu á kynningar- og hvatningarstarf er tengist starfsmenntun. Þannig verði stuðlað að aukinni starfsmenntun í íslensku atvinnulífi fyrir ófaglærða starfsmenn.

Stjórn Sjómenntar setur sér nánari vinnureglur um úthlutun allra styrkja. Stéttarfélög skulu sjá um greiðslu einstaklingsstyrkja í umboði Sjómenntar.

3.gr.
Stjórn Sjómenntar skal skipuð fimm mönnum. Tveir skulu skipaðir af SA/SFS, einn af félagsmálaráðherra og tveir af SSÍ. Stjórn skiptir með sér verkum. Stjórnin skal halda gerðabók og rita í hana allar samþykktir sínar. Til þess að samþykkt sé lögmæt, þarf meirihluti stjórnarmanna að greiða henni atkvæði.

Firmaritun Sjómenntar er í höndum allrar stjórnar sameiginlega en framkvæmdastjóri rekstraraðila fer með prókúru fyrir sjóðinn í samræmi við þjónustusamning og úthlutunarreglur sjóðsins.

4.gr.
Tekjur Sjómenntar eru:

  • Framlag úr Atvinnuleysistryggingarsjóði á starfstíma Sjómenntar
  • Vaxtatekjur.

Tekjum Sjómenntar skal einungis varið í samræmi við markmið, sbr. 2. gr.

5.gr.
Þeir, sem óska styrks frá Sjómennt skulu senda stjórn umsókn þar um. Á grundvelli þeirra upplýsinga tekur stjórn ákvörðun um hvort og hve háan styrk viðkomandi umsækjandi skuli fá.

6.gr.
Stjórn ræður starfsmann /-menn Sjómenntar eða gerir samkomulag við þriðja aðila um rekstur skrifstofunnar. Skrifstofa Sjómenntar annast umsýslu og reikningshald, innheimtir tekjur og innir af hendi greiðslur, allt eftir tilvísun stjórnar.

7.gr.
Reikningssár Sjómenntar er almanaksárið. Reikningar skulu liggja fyrir í síðasta lagi í apríl ár hvert og skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðendum sem aðilar koma sér saman um. Ársskýrsla og reikningar sjóðsins skulu kynnt hlutaðeigandi aðilum.

8.gr.
Um önnur ónefnd atriði vísast í samkomulag aðila og kjarasamninga sem í gildi eru á hverjum tíma. Breytingar á þessari reglugerð skulu hljóta samþykki stjórnar sjóðsins.

Reglugerð þessi er gerð og staðfest með undirritun af fulltrúum aðila í stjórn Sjómenntar.

Reykjavík, 16. desember 2015