Reglugerð fyrir starfsmenntunarsjóðinn Sveitamennt

1.gr.
Félagið heitir Sveitamennt og er með heimili og varnarþing í Reykjavík. Sveitamennt er starfsmenntunarsjóður þeirra sem aðild eiga að kjarasamningum Sambands íslenskra sveitarfélaga og aðildarfélögum Starfsgreinasambands Íslands á landsbyggðinni.

2. gr
Tilgangur Sveitamenntar er að reka sameiginlegan starfsmenntunarsjóð fyrir aðila kjarasamninga Starfsgreinasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga í samræmi við ákvæði kjarasamninga aðila sem í gildi eru á hverjum tíma.

3. gr.
Tilgangi sínum hyggst Sveitamennt ná með því að styrkja hlutaðeigandi einstaklinga, sveitarfélög og stofnanir þeirra til endur- og símenntunar sem og til starfsþróunar.
Um styrkúthlutanir fer eftir reglum sem stjórn Sveitamenntar setur.

4. gr.
Stofnfélagar eru þeir sem upp eru taldir í stofnsamningi aðila frá 27. nóvember 2006.

5.gr.
Aðild að Sveitamennt eiga Samband íslenskra sveitarfélaga og aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands á landsbyggðinni sem nefnd eru í kjarasamningum aðila sem í gildi eru á hverjum tíma.

6. gr.
Stjórn Sveitamenntar skal skipuð fjórum mönnum, tveimur fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga og tveimur fulltrúum Starfsgreinasambands Íslands. Varamenn í stjórn skulu vera tveir, einn frá hvorum aðila.
Stjórnin kýs formann og varaformann til tveggja ára í senn.
Firmaritun Sveitamenntar er í höndum allrar stjórnar sameiginlega en  framkvæmdastjóri rekstraraðila fer með prókúru fyrir sjóðinn í samræmi við þjónustusamning og úthlutunarreglur sjóðsins.

7. gr.
Sveitamennt er fjármögnuð með iðgjöldum sem sveitarfélög greiða til sjóðsins vegna hlutaðeigandi starfsmanna samkvæmt ákvæðum í kjarasamningum hverju sinni.
Daglega umsjón Sveitamenntar annast rekstraraðili sjóðsins, þ.e. Landsmennt kt. 771000-3310 skv. þjónustusamningi þar um.
Skrifstofa sjóðsins annarst umsýslu og reikningshald sjóðsins, framfylgir samningum vegna innheimtu tekna og innir af hendi greiðslur úr honum, allt eftir tilvísun stjórnar.

8. gr.
Reikningsár Sveitamenntar er almanaksárið. Reikningar skulu liggja fyrir í síðasta lagi í apríl ár hvert og skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðendum sem aðilar koma sér saman um. Ársskýrsla og  reikningar sjóðsins skulu kynnt hlutaðeigandi aðilum.

9. gr.
Ákvörðun um slit Sveitamenntar verður tekin með uppsögn annars hvors aðila, þ.e. Sambands íslenskra sveitarfélaga eða Starfsgreinasambands Íslands. Uppsögn skal vera skrifleg og með sex mánaða fyrirvara þannig  sjóðurinn verði aflagður frá og með lokum gildistíma kjarasamninga.

10. gr.
Um önnur ónefnd atriði vísast til kjarasamninga Sambands íslenskra sveitarfélaga og aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands á landsbyggðinni sem í gildi eru á hverjum tíma.
Breytingar á þessari reglugerð skulu hljóta samhljóða samþykki stjórnar sjóðsins.

Reglugerð þessi er gerð og staðfest með undirritun af fulltrúum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og aðildarfélögum Starfsgreinasambands Íslands á landsbyggðinni í stjórn Sveitamenntar.

Reykjavík, 8. desember 2015