Ríkismennt SGS
þróunar og símenntunarsjóður
starfsmanna ríkisins á landsbyggðinni innan SGS
1.gr.
Sjóðurinn heitir Ríkismennt og er með heimili og varnarþing í Reykjavík. Ríkismennt er starfsmenntunarsjóður þeirra sem aðild eiga að kjarasamningum fjármála-og efnahagsráðuneytisins og aðildarfélögum Starfsgreinasambands Íslands á landsbyggðinni sem nefnd eru í kjarasamningum aðila sem í gildi eru á hverjum tíma.
Stofnfélagar eru þeir sem upp eru taldir í stofnsamningi og samþykkt aðila frá 26. apríl 2005. Sjóðurinn tók formlega til starfa 1. júní 2005.
Sjóðurinn starfar með því skipulagi og markmiði sem segir í þessum reglum.
2. gr
Sjóðurinn skal rekinn sem deildarskiptur sjóður í tveimur deildum. Annars vegar er það þróunar-og stofnanadeild og hins vegar starfs-og símenntunardeild. Stjórn sjóðsins setur hvorri deild fyrir sig nánari reglur um úthlutun.
3. gr.
Tilgangur Ríkismenntar er að reka sameiginlegan starfsmenntunarsjóð. Markmið sjóðsins er annars vegar að efla símenntun starfsmanna með það fyrir augum að þeir verði færari til að takast á við sífellt fjölbreyttari verkefni og hins vegar að auka möguleika stofnana á að þróa starfsvið sitt þannig að það samræmist þeim kröfum sem gerðar eru til stofnana á hverjum tíma.
Markmiði sínu hyggst Ríkismennt ná með því að styrkja hlutaðeigandi einstaklinga og stofnanir ríkisins á landsbyggðinni til endur- og símenntunar sem og til starfsþróunar. Einnig styrkir sjóðurinn fræðsluverkefni hjá þeim stéttarfélögum sem að sjóðnum standa og fjármagnar þau verkefni sem sjóðsstjórn skipuleggur.
Um styrkúthlutanir fer eftir reglum sem stjórn Ríkismenntar setur sbr. 2.gr.
4. gr.
Sjóðurinn sinnir hlutverki sínu með eftirfarandi hætti:
a) Þróunar-og stofnanadeild
Hlutverk deildarinnar er að veita styrki til fræðsluverkefna á sviði símenntunar sem eru í samræmi við markmið sjóðsins til
– stofnana og atvinnurekenda sem í sjóðinn greiða
– stéttarfélaga sem að sjóðnum standa
– verkefna sem sjóðsstjórn skipuleggur
b) Starfs-og símenntunardeild
Hlutverk deildarinnar er að gefa félagsmönnum stéttarfélaga sem aðild eiga að sjóðnum, kost á að geta sótt án verulegs kostnðaðar starfsnám og símenntun sem geri þeim mögulegt að taka að sér vandasamari störf. Í samræmi við markmið deildarinnar eru veittir styrkir til einstakra félagsmanna.
Jafnframt styrkja báðar deildirnar verkefni sem aðilar semja sérstaklega um í kjarasamningi.
5. gr.
Stjórn Ríkismenntar skal skipuð fjórum mönnum, tveimur fulltrúum fjármála-og efnahagsráðuneytis og tveimur fulltrúum landsbyggðarfélaga Starfsgreinasambands Íslands. Varamenn í stjórn skulu vera tveir, einn frá hvorum aðila.
Stjórnin kýs formann og varaformann til tveggja ára í senn.
Stjórnin skal halda gerðabók og rita í hana samþykktir sínar. Til þess að samþykkt sé lögmæt þarf meirihluti sjórnarmanna að vera henni fylgjandi.
Firmaritun Ríkismenntar er í höndum allrar stjórnar sameiginlega en framkvæmdastjóri rekstraraðila fer með prókúru fyrir sjóðinn í samræmi við þjónustusamning og úthlutunarreglur sjóðsins.
6. gr.
Ríkismennt er fjármögnuð með iðgjöldum sem launagreiðandi greiðir til sjóðsins vegna hlutaðeigandi starfsmanna samkvæmt ákvæðum í kjarasamningum hverju sinni.
Sjóðurinn verður ávaxtaður á þann hátt sem sjóðsstjórn telur hagkvæmasta á hverjum tíma.
Stjórn sjóðsins er heimilt að semja við aðra aðila um að sjá um daglega umsýslu hans, þar á meðal bókhald en halda skal aðgreint bókhald fyrir hvora deild fyrir sig.
7. gr.
Reikningsár Ríkismenntar er almanaksárið. Reikningar skulu liggja fyrir í síðasta lagi í apríl ár hvert og skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðendum sem aðilar koma sér saman um. Ársskýrsla og reikningar sjóðsins skulu árlega kynnt hlutaðeigandi aðilum.
8. gr.
Um önnur ónefnd atriði vísast til kjarasamninga fjármála-og efnahagsráðuneytis og aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands á landsbyggðinni sem í gildi eru á hverjum tíma.
Breytingar á reglum þessum skulu hljóta samþykki fjármálaráðherra og stéttarfélaga sem aðild eiga að sjóðnum
Samþykkt af fjármála- og efnahagsráðuneyti og SGS
9. desember 2015