Styrkir til fyrirtækja í ágúst

Fræðslusjóðir Landsmennt

Landsmennt greiddi út fyrirtækjastyrki fyrir rúmar 3 milljónir í ágúst. Fyrirtækin eru að komast í gang eftir þetta yndislega sumar og eru að taka til hjá sér og senda inn umsóknir fyrir námskeiðum sem haldin voru fyrir sumarið.

Meðal námskeiða voru: Íslenskunámskeið, endurmenntun bílstjóra, vinnuvélanámskeið, samskiptanámskeið, þjónustunámskeið, skyndihjálparnámskeið og námskeið í markaðsetningu á internetinu. Einnig var ein umsókn um verkefnið „Fræðslustjóri að láni“ en það er Gamla Kaupfélagið, sem er veitingarstaður á Akranesi og Hótel Glymur í Hvalfirði sem ætla að fá til sín fræðslustjóra.

Verkefnið felur það í sér að fræðslusjóður leggur til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþarfir fyrirtækisins og býr til fræðsluáætlun byggða á greiningunni.
Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Greiningin og fræðsluáætlunin er ávallt unnin í nánu samstarfi með starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins.
Upplýsingar um styrki Landsmenntar er að finna hérna á heimasíðu sjóðsins; www.landsmennt.is eða á skrifstofu í síma 599 1450.

Deildu þessari frétt