Landsmennt veitir nýsköpunar-og þróunarstyrk í „Gervigreind fyrir alla“

Fræðslusjóðir Landsmennt

Stjórn Landsmenntar, ásamt stjórn Starfsmenntasjóðs verslunar-og skrifstofufólks, hafa samþykkt styrkveitingu í verkefni Skákgreindar ehf. „Gervigreind fyrir alla“

Sjóðirnir styrkja verkefnið um 4 milljónir hvor um sig og er styrkveitingin hluti af mótframlagi til verkefnisins vegna styrktarsamnings Skákgreindar við Vöxt hjá Tækniþróunarsjóði Rannís. Unnið hefur verið að verkefninu í nokkur ár og naut það Sprotastyrks frá Tækniþróunarsjóði Rannís fyrir ári síðan. Það eru oft fyrstu skref nýsköpunarverkefna hjá Tækniþróunarsjóði Rannís, veittir eru tveggja ára Sprotastyrkir og síðan geta verkefnin farið yfir í Vaxtarstyrk með samningi til tveggja ára til viðbótar.  Skákgreind er einnig með Erasmus Plus styrk, í hlutverki aðal umsækjanda og verkefnisstjóra fyrir skylt verkefni, þ.e. aðlögun að menntaskólanemendum. Þar eru samstarfsaðilar Háskólinn í Reykjavík, Háskóli Íslands og Háskólinn í Bielefeld í Þýskalandi. Verkefnið er þverfaglegt á sviði gervigreindar, menntavísinda og sálfræði.

Um er að ræða afar spennandi verkefni sem stjórn Landsmenntar bindur miklar vonir við að muni nýtast markhópi sjóðsins til framtíðar. Tilgangur og innihald þess er tvíþætt:

  1. a) Þróa hugbúnað, sem hefur það að markmiði að gera nám aðgengilegra, eftirsóknarverðara og skemmtilegra. Nýjustu gervigreindartækni er beitt til að meta upplifun notenda í rauntíma. Þær upplýsingar eru síðan nýttar til að aðlaga kennsluna að hverjum og einum nemanda, þar með talið hugarástandi hans hverju sinni. Markmiðið er að auðvelda fólki á vinnumarkaði, sem er önnum kafið við störf og fjölskyldulíf, að stunda nám með aðstoð tækninnar og nýtt þann tíma betur sem það hefur til fræðslu.
  2. b) Þróa námsefni um gervigreind, sem hefur bæði það að markmiði að veita starfsfólki á vinnumarkaði grunnþekkingu og einnig stíga skref í átt að því að starfsfólk geti nýtt tæknina í leik og starfi.

Myndin með fréttinni er fengin hér

Deildu þessari frétt