Kennslubækur í íslensku fyrir Pólverja og Víetnama

Fræðslusjóðir Landsmennt

Stjórn Landsmenntar hefur nýverið styrkt útgáfu af tveimur kennslubókum í íslensku fyrir Pólverja og Víetnama.

Fræðslumiðstöð Vestfjarða gaf út handbók um íslenska málfræði með pólskum skýringum, Íslenska málfræðihandbókin mín – Moja prodręczna gramatyka języka islandzkiego. Höfundur bókarinnar er Joanna Majewska, hún samdi handbókina samhliða námi sínu í íslensku. Hún flutti til Íslands árið 2006 og hóf fljótlega að sækja íslenskunámskeið á Flateyri. Í Póllandi hafði hún lokið meistaragráðu í uppeldis- og kennslufræði frá pólskum háskóla.

Saga akademía – málaskóli gaf út kennslubók um íslenska málfræði fyrir Víetnama. Bókin heitir Íslenska fyrir Víetnama 1. (Hoc Tieng Bang Ðao Theo Cach De Hieu) Bókin er ætluð byrjendum í íslensku sem hafa víetnömsku að móðurmáli. Í bókinni eru fjölmörg verkefni og mjög margar skýringarmyndir og teikningar. Engin önnur kennslubók er til sem sérstaklega er samin fyrir Víetnama. Höfundar bókarinnar eru Karl Smári Hreinsson og Tracey Phuc Nguyen.

Deildu þessari frétt