Alþjóðleg ráðstefna um raunfærnimat (4th VPL Biennale)

Fræðslusjóðir Landsmennt

Dagana 19.-20. maí sl. var haldin Alþjóðleg ráðstefna um raunfærnimat (4th VPL Biennale) á Grand Hótel Reykjavík. Þetta er í fjórða skiptið sem ráðstefnan er haldin og var að þessu sinni í umsjón Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) í samstarfi við Norræna tengslanetið um nám fullorðinna (NVL) og European centre for the development of vocational training (CEDEFOP).

Ráðstefnan VPL Biennale er fyrir stefnumótendur, rannsakendur, sérfræðinga og hagsmunaaðila sem koma að þróun og framkvæmd raunfærnimats.

Fræðslusjóðirnir Landsmennt, Sveitamennt, Ríkismennt og Sjómennt styrktu ráðstefnuna auk annara fræðslusjóða, ásamt innlendum og erlendum aðilum og alþjóðasamtökum sem tengjast efninu eins og t.d. UNESCO, GLOBEDU og EPALE.

Á Íslandi hafa 6.168 einstaklingar lokið raunfærnimati frá árinu 2007 og á hverju ári bætast rúmlega 500 í þennan hóp. Í flestum tilvikum er raunfærnimat nýtt til að stytta nám í framhaldsskólum. Raunfærnimat hefur sannað sig sem annað tækifæri til náms sérstaklega fyrir starfsnámsbrautir, en á Íslandi hefur töluvert verið rætt um að mikilvægt sé að auka notkun á raunfærnimati þegar nemendur skrá sig í nám. Þá er hafin vinna við að raunfærnimeta á móti viðmiðum atvinnulífsins eða á móti viðmiðum ákveðinna starfa til að bregðast við breytingum á vinnumarkaði.

Í tengslum við ráðstefnuna voru veittar viðurkenningar fyrir fjögur árangursrík raunfærnimatsverkefni og var Fræðslusetrið Starfsmennt á meðal verðlaunahafa. Starfsmennt hlaut viðurkenningu fyrir árangursríkt verkefni í raunfærnimati og færniuppbyggingu sérhæfðra þjónustufulltrúa en þar var einmitt um að ræða tilraunaverkefni í raunfærnimati á móti viðmiðum starfa.

Ráðstefnan var vel sótt og komu þátttakendur víðsvegar að en eitthvað á milli 200-300 gestir komu erlendis frá. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins á heiður skilið fyrir skipulagningu þessa stóra viðburðar en þessi ráðstefna var ein af þeim stærri sem haldin er hér á landi eftir Covid faraldur.

Nánari upplýsingar um raunfærnimat og verkefni því tengdu má finna á heimasíðu Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins www.frae.is

Deildu þessari frétt