Brákarhlíð hjúkrunar- og dvalarheimili fær Fræðslustjóra að láni
Í október var undirritaður samningur um verkefnið Fræðslustjóra að láni við Brákarhlíð hjúkrunar- og dvalarheimili í Borgarnesi. Sveitamennt fjármagnar verkefnið ásamt Sjúkraliðafélagi Íslands og Símenntunarmiðstöð Vesturlands sér um fræðslugreininguna.
Hjá Brákarhlíð starfa 81 starfsmaður og unnið hefur verið eftir Eden Alternative hugmyndafræðinni síðan árið 2010. Heimilið fékk alþjóðlega viðurkenningu sem fullgilt Eden heimili 2020. „Eden hugmyndafræðin byggir fyrst og fremst á virðingu fyrir einstaklingnum, að hann geti lifað lífinu með reisn. Hér vinnum við á heimili fólks en það dvelur ekki á okkar vinnustað,“ útskýrir Jórunn María Ólafsdóttir, hjúkrunarforstjóri í Brákarhlíð.
Verkefnið felur það í sér að fræðslusjóður leggur til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþarfir stofnunarinnar og býr til fræðsluáætlun byggða á greiningunni.
Deildu þessari frétt